Jæja, þá er janúar mættur – já og meira að segja hálfnaður – og mér finnst desember hafa liðið hjá á svona einu korteri.
Ég er rétt að jafna mig eftir desember, rútínan fer algerlega úr skorðum og svo fer öll orkan fyrstu vikurnar í að koma henni á aftur 🙂
Ég er lítið búin að sauma, en er þó að gera jarðaberjateppi handa Örnu og halda áfram með Swoon blokkirnar mínar.
Það góða við prjón og hekl er að það er næstum alveg sama hvað maður er þreyttur á kvöldin, það er alltaf hægt að hlamma sér upp í sófa (með jólabjór jurtate og nammi ávexti í skál) og prjóna/hekla nokkrar lykkjur. Þannig hefur mér tekist að prjóna fullt síðustu vikurnar.
Ég keypti svakalega flott dúnvesti handa eiginmanninum í jólagjöf og datt þá í hug að það gæti verið flott að vera í lopa-kaðlapeysu innanundir. Mér sýnast kaðlar komnir aftur og það er svo gaman að prjóna þá. Ég nennti ekki að finna uppskrift svo ég tók peysu sem hann á fyrir og smellpassar og taldi hana út. Svo fann ég kaðlamynstur sem mér líkaði og yfirfærði yfir á gömlu peysuna. Ég áttaði mig ekki á því hvað kaðlarnir toga til sín og bolurinn varð fyrst allt of þröngur. Þá bætti ég við 26 lykkjur og þá varð bolurinn fínn. Ermarnar voru auðveldar, engir kaðlar á þeim en þegar kom að því að prjóna axlarstykkið ákvað ég að hafa laskaermar. Ég taldi 46 umferðir á gömlu peysunni og gerði laskaúrtöku í 2. hverri umferð, alls 23 sinnum. Hehehe, peysan er allt of stutt frá hálsmáli og niður að armvegi, ég þarf að rekja hana axlarstykkið upp (eða klippa það frá, það er svo erfitt að rekja upp plötulopa og mér finnst hann verða svo klesstur og ljótur að það er erfitt að prjóna úr honum aftur) og gera nýtt axlarstykki. Mér datt í hug að það gæti verið sniðugt að taka úr í 3. hverri umferð og hafa umferðirnar um 70 (1/3 fleiri). Kemur í ljós, þetta verður síðbúin jólagjöf (hann fékk hana samt á prjónunum í pakkann) 🙂
ágæt þumalputtaregla varðandi kaðlaprjón er að bæta ca 20% við lykkjufjöldann yfir stykkið sem kaðlarnir eru í. þ.e. sýnist mér munstrið hjá þér ná yfir eitthvað um 35 lykkjur, þá myndi ég auka út um 8 lykkjur eftir stroffið, á því bili sem munstrið á að vera ( til viðbótar við þær lykkjur sem þú hefðir hvort eð er aukið eftir stroffið). líst annars vel á þessa peysu, verður flott.
kv.Fríða
æðisleg peysa