Eins og venjulega er ég með allt allt allt allt allt (þið náið þessu er það ekki?!!) of margt á prjónunum, heklunálinni og í saumavélinni… sko allt of margt! En það er bara svo gaman að byrja á nýju 🙂
Það klárast þó alltaf eitt og eitt í einu og nú er ég alveg að verða búin að hekla lítið teppi úr ömmuferningum. Ég er búin með 35 af 42 ferningum. Ég fór með vinkonu minni á heklunámskeið hjá Storkinum fyrir rúmu ári síðan og það kom mér á óvart hvað þetta er einfalt og skemmtilegt. Og það er eitthvað við svona ömmudúlluteppi, kósí og krúttlegt, hið fullkomna sófaverkefni.
Annað verkefni sem ég var að klára er hjónarúmsteppi. Maðurinn minn lagði fram kvörtun í fyrra, eigandi svona saumakonu en hafa aldrei eignast teppi á hjónarúmið (okei, það var reyndar eitthvað til í þessu þarna). Svo ég dreif í teppi en hef saumað það í skorpum síðan í september í fyrra. Hér er teppið komið, dásamleg efni frá Joel Dewberry. Ég er að klára bakið og svo ætla ég með það í stungu (nenni ekki að stinga svona stórt teppi heima, ef það er þá hægt).
join the conversation