Ungbarnapoki

DSC_0047

Það styttist í snáðann (4 vikur eftir í settan dag)… samt erum við svo róleg yfir þessu öllu (fjórða barn!) – höfum eiginlega ekki gert neitt tilbúið. Búin að kaupa bleyjur, hekla teppi og prjóna þennan ungbarnapoka. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það er mikil gerviþörf í gangi þegar kemur að barneignum (sko, varðandi barnadót, ekki börnin sjálf haha). Svo margt af því sem manni var talið trú um að maður yrði að eiga/hafa þegar ég var að eignast mín fyrstu börn var svo bara óþarfi. Ég held að það sé best að koma sér upp helstu nauðsynjum (rúm/vagga, bleyjur, föt til skiptana, gjafapúði…) og sjá svo bara hvort þörfin á fleira dóti láti kræla á sér… það má þá bara stökkva út í búð eftir því.

Annað sem ég hef tekið eftir er verðlagning á barnavörum í dag miðað við fyrir 10-11 árum þegar ég átti Andreu og Davíð!!! Þessi verðlagning er út úr öllu samhengi við verðbólgu. Til dæmis fór ég í Babysam að skoða vöggur. Það voru engar vöggur til en að sögn starfsfólksins voru nokkrar á leiðinni. Það vildi svo til að starfsstúlkan (sem b.t.w. var mjög almennileg) átti mynd af þeim í bæklingi sem Babysam hafði gefið út árið 2003 (enn að selja sömu vöggur)… hún rétti mér bæklinginn en í honum var ekki bara myndin heldur líka verðið á vöggunni þegar bæklingurinn var gefinn út, 9.900 krónur. Ég spurði af rælni hvað vaggan kosti í dag… u.þ.b.49.000!!!!! Og þetta eru ekki verð með dýnu eða himnasæng… hvurslags eiginlega dónaskapur er þetta?!!! Og á dönsku síðu Babysam kostar þessi vagga DKK 1.299 (u.þ.b. 29.000 ISK). Maður þakkar bara fyrir að eiga flest það sem okkur vantar, ég myndi ekki vilja vera að eignast mitt fyrsta barn í dag án þess að hafa einhverja góða að sem geta lánað manni dótið!

DSC_0044

Okei, þá er ég búin að röfla yfir því… aftur að ungbarnapokanum 🙂 – Ég fékk fallegar tölur í Litlu prjónabúðinni. Hafði ekki komið þangað inn áður. Æðisleg búð og æðisleg þjónusta – tekið á móti manni með bros á vör… mæli með ferð þangað! 🙂

DSC_0042

Snið: Garnstudio BabyDROPS 18-2 (frítt á netinu)
Stærð: 6-9 mán.
Garn: Drops Eskimo Tweed no 73 (silver grey) – keypti í Föndru, Dalvegi
Magn: ath! gefið er upp 11 dokkur, það er allt of mikið, ég notaði rétt rúmlega 8 dokkur!!
Prjónar: #8.0
Tölur: Litla prjónabúðin

DSC_0038

DSC_0045

 

join the conversation

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.