LOKSINS er ég búin að setja bindinguna á rúmteppið okkar!!!
Saga þessa teppis er orðin vandræðanlega löng. Haustið 2011 byrjaði ég að sauma teppið. Ég saumaði það í skorpum þar til það var tilbúið haustið eftir, 2012. Þá tók Halldóra hjá Stjörnuspori teppið og stakk það fyrir mig. Ég ákvað að vera ægilega sniðug (sem ég reyndar var!) og klára að útbúa bindinguna fyrir teppið áður en ég fór með það í stunguna. Halldóra stakk teppið alveg ótrúlega fallega og var búin með það í október 2012. Síðan hafa teppið og stök bindingin legið til hliðar og ekkert gerst meir.
Þegar tiltektinni á saumaherberginu lauk um daginn ákvað ég að nú væri þetta komið gott enda hjónarúmið búið að bíða lengi eftir teppi. Það tók nokkur kvöld að sauma bindinguna á enda var hún rúmir 10 metrar! — Nýju Clover klemmurnar komu þó að góðum notum og ég get mælt 110% með þeim. Þær eru alger snilld! Anna gaf mér þær þegar hún kom í heimsókn vorið 2013 en ég er búin að frétta af þessum klemmum til sölu hjá Storkinum á Laugavegi, sel það ekki dýrara en ég keypti það 🙂
Efnin í teppinu eru frá Joel Dewberry, blanda úr nokkrum línum frá honum. Ég keypti efnin fyrir löngu hjá Fat Quarter Shop en ef þið hafið áhuga á líkum efnum þá sendir þessi hönnuður reglulega frá sér línur sem allar eru hver annarri fallegri. Sniðið er líka frá honum. Það heitir Pendant Quilt og var frítt á bloggsíðunni hans. Þegar ég kíkti inn áðan var eins og hlekkurinn virkaði ekki en ég fann aðra síðu hér sem býður manni að hlaða því frítt niður.
Teppið kemur vel út á rúminu og ég er byrjuð að sauma utan um nokkra púða úr afgangsbútunum, set inn myndir af þeim síðar
Berglind