Þríhyrninga-ferninga-dúkur

Í fyrra hélt ég lítið örnámskeið hjá Íslenska bútasaumsfélaginu í gerð auðveldra þríhyrninga-ferninga. Ræmur eru saumaðar saman, síðan pressaðar í sundur og svo er skorið. Þannig fást 100% réttir þríhyrningaferningar. Til að sýna þetta betur saumaði ég þennan dúk (snið frá Modabakeshop). Í honum eru 400 þríhyrninga-ferningar.

Í möööörg ár hefur mig langað til að ná fjaðra-stungu-tækninni. Um síðustu helgi ákvað ég að ég að nú skyldi það takast. Ég eyddi tveimur dögum í að teikna fjaðrir á blað og svo lét ég bara vaða. Ég er svakalega ánægð með árangurinn og mikið rosalega var þetta skemmtilegt!! Ætli ég verði ekki með fjaðrir í öðru hverju verkefni núna… svona eins og þegar ég náði tökunum á krákustígunum!! 🙂

Uglur

Á flakki mínu um bloggheima rakst ég um daginn á tvær æðislegar síður. Á þeirri fyrri, Happy Little Cottage er daman að sýna ótrúlega krúttulegar uglur og fíla sem hún hefur saumað. Hún bendir jafnframt á hvaðan hún fékk sniðin en það er einmitt af hinni síðunni, Retro mama. Sú kona er að selja snið eftir sjálfa sig, mest ýmis tuskudýr og nálapúða. Ég heillaðist upp úr skónum og keypti snið af uglum, kanínum og fílum. Það frábæra við þetta verslunarform er að þú ert búin að kaupa með einum (tja, næstum einum) músarsmelli og örstuttu síðar færðu sniðin send í tölvupósti á pdf-sniði. Fyrir óþreyjufullar manneskjur eins og mig (óþolandi að þurfa að bíða) er þetta frábært enda strax hægt að hefjast handa!!

Ég er búin að sauma þrjár uglur, að sjálfsögðu handa mínum eigin ungum. Ef ekki væri svona ógeðslega leiðinlegt að troða inn í þær og sauma fyrir gatið myndi ég strax gera fleiri – en ætla að láta þessar duga í bili. Á samt pottþétt eftir að sauma kanínurnar og fílana líka – til dæmis frábært að eiga dýrin á lager í vöggugjafir og slíkt 🙂

Retro mama sniðin

Gulrótarkaka

Á (næstum) hverjum morgni fæ ég mér tómata og/eða gulrótarsafa. Ég skelli 4 tómötum og hálfum pakka af gulrótum í safapressuna og stundum fær engifer eða appelsína að fljóta með. Ég er því duglegur styrktaraðili grænmetisbænda.

Í síðustu viku fórum við Arna í Bónus og ég keypti 4 pakka af gulrótum (2 kg). Ég var búin að gleyma að ég hafði pantað 1,8 kg af vinnufélaga til að styrkja son hans í íþróttum og annan 1,8 kg poka af Eddu vinkonu.

Ég sat því uppi með tæp 6 kg. af gulrótum í ísskápnum! Nú voru góð ráð dýr… börnin komu með nokkrar hugmyndir; gulrótarsúpa, gulrótarbrauð, gulrótarbollur, gulrótarkaka, gulrótarmarmelaði… og svo enn frumlegra; gulrótarvöfflur…

Sunnudagskakan þessa viku er því auðvitað gulrótarkaka. Ég læt uppskriftina fylgja með en ég fékk hana fyrir mörgum árum hjá Hildi vinkonu.

Þurrefnin út í

Gulrætur flæða um allt í Óttuhæð

 

Guði sé lof fyrir Mulinex!

Tilbúið í ofninn

 

Gulrótarkaka

 

Kaka

4 egg
3 dl sykur

3 dl hveiti
2 tsk matarsódi
2 tsk kanill
1 tsk salt
1 tsk vanillusykur

1 dl matarolía
4-5 dl (3-4 stk.) rifnar gulrætur

Krem

 100 g rjómaostur
1 tsk vanillusykur
50 g smjör
125 g flórsykur

Aðferð

Eggjum og sykri hrært vel saman

Hveiti, natron, kanil, salti og vanillusykri bætt út í og hrært vel

Matarolíu og gulrótum bætt út í og hrært saman við

Sett í smurt form og bakað í 45-60 mín. við 200°c

Kakan kæld og kreminu smurt yfir

Ath. ef gera á muffins úr deiginu er það bakað í 20-25 mín

 

Bækur um hekl

Ég gleymdi mér um daginn (eins og svo oft áður) við að skoða annarra saumakvenna blogg. Eitt af mínum uppáhalds er Serendipity Patch. Þessi kona tekur undursamlega fallegar myndir og saumar og heklar af miklum móð, auk þess sem hún virðist vera alger garðálfur. Hún bendir á tvær af sínum uppáhalds hekl-bókum og talar mikið um þær… svo mikið að ég gafst upp um daginn og festi kaup á þeim báðum (neyddist). Þær eru ólíkar en báðar æðislegar, mæli með þeim báðum:

Tvö stykki tilbúin til stungu

Eins og mér finnst nú gaman að bútasaum, þá finnst mér svoooo leiðinlegt að leggja teppin og þræða þau/líma áður en þau eru stungin. Það er því ágætt að taka nokkur í einu. Hér eru tvö stykki tilbúin, annað er dúkur en hitt er veggteppi eða einhvers konar “upp á punt” teppi.

Tilda í te

Ég gerði mér ferð inn í A4 um helgina í þeirri von að nýju Tilda efnin væru komin. Og jú, viti menn, þarna biðu þau eftir mér! Tilda bregst ekki frekar en fyrri daginn og ég gat ekki staðist að taka með mér nokkra tebolla og félaga með. Væri alveg til í að gera diskamottur úr þessum.

Nafnateppi, frh…

Fyrir nokkrum vikum síðan bloggaði ég um nafnateppi sem ég var að gera handa litlum frænda. Ég kláraði teppið á síðustu stundu og eins og alltaf var ég að sauma niður bindinguna í veislunni sjálfri!

Þannig að ég náði ekki að taka almennilegar myndir af teppinu áður en ég gaf það en í gær fékk ég það að láni fyrir myndatökur. Hér er teppið, einlit efni og fullt af örvun fyrir lítil augu!
Og nafnið er Sölvi Kári 😉

Körfuteppi

Byrjuð að skera niður í og sauma Löngumýrarverkefnið, elska að vakna snemma á laugardagsmorgni, allir sofa og ég þarf hvergi að vera og ekkert að gera (nema sauma)!! – eigið góða helgi framundan í fallega veðrinu 🙂

Tula Pink teppi

Loksins er Tulu Pink teppið tilbúið. Dásamlegt lúruteppi með flónelefni í bakinu. Efnalínan er frá Tulu Pink og heitir Neptune.

Tula er ein af mínum allra uppáhalds efnahönnuðum. Sniðið er afModa Bakeshop og er tilvalið fyrir lagköku-pakka (10″x10″ ferninga). 48 ferningar fóru í teppið.

Vond birta

Þegar ég var lítil var pabbi alltaf að minna mig á að nota gott ljós þegar ég var að lita, teikna, læra og föndra. Ég skildi hann ekki! Ég sá bara vel og mér fannst lítill munur á meira ljósi eða minna. Í dag er ég alveg eins við börnin mín. Ég skil ekki hvernig þau geta setið við heimalestur út í myrku horni í herberginu sínu þegar þau eiga þessi fínu borð og góð skrifborðsljós. Ég tygg á sömu setningu og pabbi forðum daga, “passaðu augun þín, það fer illa með þau að læra í svona myrkri” 🙂

Jæja, ég var aldeilis gripin glóðvolg í morgun… og það af sjálfri mér! Ég sat í gærkveldi og heklaði tvær ömmudúllur yfir sjónvarpinu en nennti ekki að teygja mig í dagljósalampann minn. Þegar ég kom svo inn í sjónvarpsherbergi í morgun blöstu dúllurnar við mér með GULAN kant en ekki hvítan!! Hefði betur hlýtt pabba 🙂