Snáðateppi

Snáðateppi 01

Eins og það er nú yfirleitt kósí að horfa á góðan þátt eða mynd í sjónvarpinu á meðan maður er að skera efni í nýtt teppi þá er það ekki alltaf neitt svakalega góð hugmynd!!!

Þar sem fjórða barn er komið langt á leið… lítill snáði (ég geri allt í mynstri, sauma, prjóna, hekla, barneignir… stelpa, strákur, stelpa strákur!!) er ekki seinna vænna að fara að huga að litlu strákalegu bútasaumsteppi. Ég pantaði því um daginn æðislega efnalínu sem heitir Boy Toys, frá Robert Kaufman. Tólf feitir fjórðungar (Fat Quarters) af dásamlega strákalegum… en ekki væmnum… retroefnum.

DSC_0023

Ég gat ekki beðið með að fara að skera í teppi og þar sem maðurinn minn var ekki heima þetta kvöld settist ég ein við sjónvarpið og skar og skar…. og skar…. þar til ég rankaði við mér og var búin að skera ALLA tólf fjórðungana!!! Ég var komin með nóg í sex barnateppi og átti engan afgang af efnunum!!

Hmm… jæja, ég mun þá a.m.k. ekki “sitja uppi með” efnin og ætla bara að sauma fjögur teppi (nóg af litlum snáðum í kringum mig) og nota svo kannski restina í skiptitösku eða eitthvað svoleiðis 🙂

Ég er byrjuð að sauma, set inn fleiri myndir þegar ég er búin!

Leyni-jólasveinn

Í haust ákvað ég að taka þátt í leyni-jólasveinaleik hjá Chookyblue (við höfum verið blogvinkonur í mörg ár og ég hef aldrei komist að hennar rétta nafni!). Chooky hefur verið með þennan leik á síðunni sinni nokkur jól í röð og það eru hátt í 100 konur sem taka þátt (geri ráð fyrir að þetta séu bara konur, afsakið ef ég er “kynjuð” (fliss))

Í lok nóvember sendi ég gjöfina mína af stað til Cathy sem býr í Ástralíu (sjá mynd af gjöfinni neðst í þessari færslu)

Stuttu síðar kom sending til mín, einnig frá Ástralíu. Það var næstum mánuður til jóla svo ég faldi gjöfina vel… og svo fann ég hana ekki!! Frekar neyðarlegt en þar sem ég er ófrísk ætla ég að nota það sem afsökun 🙂 – Loksins fann ég þó pakkann og það sem innihaldið var skemmtilegt!

Ég verð alltaf jafn hissa á því hvað sauma-bloggarar leggja mikla vinnu og tíma í að gera gjafir handa ókunnugum.

Minn leyni-jólasveinn heitir Janice. Pakkinn hennar innihélt ekki eina eða tvær gjafir, heldur nokkrar!

Fyrst var það þessi jólalöber. Janice hefur örugglega kynnt sér síðuna mína vel því löberinn er svo mikið ÉG! Ég elska bjarta liti og hvítt einlitt efni í bakgrunn, sjáið bara hvað löberinn kemur vel út á stofuborðinu mínu!!

SSCS-01

Númer tvö var þessi Zakka-taska (ég elska Zakka hluti). Fullkomin stærð fyrir snyrtidót, saumadót, prjóna- eða hekluverkefni eða bara hvað sem þarf að setja í tösku! 🙂

SSCS-02

En Janice var ekki aldeilis hætt hér… ó, nei! Þriðja gjöfin var þetta fallega jólatrés-skraut, vá, þvílík smáatriði!! Pínulítil saumspor, svo sætt… Andrea og Arna voru alveg heillaðar!!

SSCS-03

Og að lokum… hver elskar ekki súkkulaði?!! Sérstaklega yfir jólin þegar samviskan er í mánaðarfríi… og ég tala nú ekki um þegar maður er óléttur!!!

SSCS-04

 

Sætt OG girnilegt!!

p.s. hér er jólalöberinn sem ég sendi til Cathy:

SSCS-05

Gleðilega hátíð!

Jólamöffins2

Kæru vinir,

gleðilega hátíð, megi nýja árið færa ykkur endalausa gleði og gæfu!

Jólamöffins6

Jólamöffins5

Lakkrístoppar – piparbrjóstsykurstoppar

Toppar

Vá hvað það er langt síðan ég hef sett inn færslu hérna… það eru reyndar nokkrar ástæður (ekki afsaknir) fyrir því…

1. Búin að vera með flensu (sko mega flensu!)
2. Það er svo leiðinleg birta til myndatöku í desember (er komin með fullt af hlutum sem ég er búin að gera en á eftir að taka myndir af… dagsbirtu-myndataka í des… einhver góð ráð???!)
3. Brjálaður jólaundirbúningur í gangi

Okei… þá er ég komin með ástæður og afsakanir…

…. Arna er búin að vera veik heima í tvo daga, með hita og ill í maga (hjúkkit, ekki gubbuna samt). Og í gær nýtti ég daginn aldeilis vel. Nú orðið baka ég bara lakkrístoppa fyrir jólin (ég meina, af hverju að baka það næstbesta þegar þú getur bara bakað það besta?!!). Það er samt alltaf þannig að þessir toppar rata sjaldnast ofan í kökubox, fara bara beint af plötunni upp í litla (og stóra!) munna!! Við Arna (í stuði þrátt fyrir hita) tókum því fimm klst. frá í gær og bökuðum 200 lakkrístoppa og 150 piparbrjóstsykurstoppa (nú skal ég eiga í kökuboxi fyrir jóladag!!)

Í fyrra prófaði ég að setja mulinn piparbrjóstsykur í stað súkkulaðis og lakkrískurl… ef maður er lakkrísmanneskja þá er það alveg málið en mér finnst samt nauðsynlegt að hafa þessa hefðbundnu með! Annað trix sem ég komst yfir í fyrra var að þeyta eggjahvíturnar yfir vatnsbaði. Ég er búin að klúðra hundruðum toppa (frá 12 ára aldri) og var orðin hrikalega leið á þurrum, brotnum, blautum, sprungnum, föllnum toppum þegar ég datt niður á gamla bakstursbók. Í henni er sér kafli um marengs og þetta trix gefið upp… svínvirkar, hefur aldrei klikkað!!

Set uppskriftina af piparbrjóstsykurstoppunum með!

Toppar2

Piparbrjóstsykurstoppar

5 eggjahvítur
330 gr sykur
150 gr mulinn piparbrjóstsykur (einn poki Tyrkis Peber)

Eggjahvítur stífþeyttar yfir vatnsbaði (plastskál yfir potti með botnfylli af vatni, nota rafmagns-handþeytara (gott að vera í ofnhanska til að halda skálinni í pottinum))

Þeyti þar til hvíturnar byrja að stífna, bæta sykrinum úti í, þeyta lengur (ég þeyti þar til handþeytarinn getur ekki meir!)

Setja þá hvíturnar í hrærivélaskál (ég hita skálina að utan svo hún sé ekki ísköld) og þeyta í alveg 10 mín.

Berja brjóstsykurinn í spað og hræra honum saman við

Bakað við 150°c 18-20 mín, fer eftir stærð toppana

 

Makkarónur

Já ég veit að það er algert makkrónuæði á Íslandi (bollakökurnar svo 2011!!) en við mamma (og Lóa vinkona og mamma hennar) fórum samt á makkarónunámskeið í síðasta mánuði hjá Salt eldhús.

Ég verð að segja að ég var búin sjá nokkrar myndir á heimasíðunni þeirra og átti von á góðu en námskeiðið, staðurinn og eigandinn fóru langt fram úr væntinum okkar! Kvöldið var æðislegt!! Ég hef nú prófað nokkrum sinnum að baka makkarónur og þær hafa alltaf braðgast vel en áferðin og útlitið ekki tekist sem skyldi. Nú veit ég af hverju… makkarónugerð er (svo ég “kvóti” nú í Auði námskeiðshaldara) fyrst og fremst tækni og vísindi!! Ekki að grínast… það er t.d. slæmt að baka makkarónur ef það er rigning úti!!

En nú er ég “húkkt” og búin að prófa nokkrar tegundir heima. Þær líta allar vel út og bragðast guðdómlega (maður fær nokkrar krem-uppskriftir á námskeiðinu), saltkaramella, chilli-súkkulaðiganache og lemon custard (homemade!) 🙂

Heklaðar húfur

Uppskriftina að þessum sætu húfum fann ég á síðunni Aesthetic Nest. Þessi kona er frá USA og saumar og heklar mikið á stelpurnar sínar. Hún gefur fullt af fríum uppskriftum með sýnikennslu (tutorials). Mæli með innliti á síðuna hennar 🙂

Garn: Debbie Bliss Rialto DK (fæst í Storkinum, Laugavegi)

Súkkulaðikaka

Dimmalimm er uppáhalds súkkulaðikakan mín. Ég fékk uppskriftina hjá einni sem vann méð mér fyrir örfáum árum. Ég held að hún hafi fengið hana hjá ömmu sinni.

Þetta er aldeilis engin kreppukaka! Ó nei… hér er bráðið súkkulaði í deiginu í stað kakódufts og í kreminu er hitaður rjómi. Davíð minn elskar þessa köku næstum því jafn mikið og mömmu sína (þegar hún bakar kökuna) 🙂

Og svo hefur mig lengi langað að búa til rósaköku, stútur 1M frá Wilton er bara snilld!

Heklað sjal frá Rowan

Þetta sjal heklaði ég síðasta vetur. Ég byrjaði á blakmóti í Stykkishólmi í október og kláraði einhvern tíma eftir áramót.

Uppskriftin er frá Rowan (Rowan knitting and crochet magazin #50) en ég tímdi ekki að kaupa garnið frá Rowan svo ég fór með uppskriftina í næstu Lopa verslun og keypti Létt lopa í staðinn. Ég er ótrúlega ánægð með það en verð samt að segja að ég sé pínulítið eftir því að hafa ekki leyft mér smá lúxus og heklað það með Rowan garninu. Ég  heyrði eitt sinn að maður ætti ekki að spara í handavinnuna sína, annað eins leggi maður í hana. Á hinn bóginn verð ég líka að segja að ég elska lopann og hann er alls ekki síðri, útkoman er bara allt önnur.

Mest af stykkinu heklaði ég á blakmótum og á meðan ég beið eftir ballerínunum mínum á æfingum. Þetta er ekta svona “on the go” verkefni, ein nál og alltaf sama endurtekningin (að vísu er endurtekningin 17 umferðir).

Það var svo gaman að hekla það að kannski hekla ég bara annað og þá úr Rowan garni. Ég myndi þá ekki loka því (strokk) heldur hafa það eins og trefil.

Frumraun mín í pappírssaum (e. Paper Piecing)

Fyrsta blokk af mörgum tilbúin. Ég var nú dálitla stund að klóra mér í hausnum yfir þessu en þetta er allt að koma. Loksins borgaði sig að hafa keypt 1/4″ add-a-quarter stikuna þarna um árið! 🙂

Nestistaska

Þessa tösku sá ég fyrst hjá Monicu Solorio-Snow (Happy Zombie). Monica er brjálæðislega skapandi og flottur hönnuður (hún er líka ógeðslega fyndin). Hún hannar efni fyrir Lecien, t.d.Winterkist og hefur hannað fullt af sniðum. Ég er alveg viss um að þið hafið oft séð eitthvað saumað eftir hana. Hún er t.d. að hanna mörg snið fyrir tímaritið Quilts and More (uppáhalds tímaritið mitt). Sem dæmi um eitt af því sem hún hefur hannað (og ég er viss um að einhver ykkar hefur saumað það teppi eða eigið vinkonu sem hefur saumað það… Villa og Helga vinkonur eru báðar búnar, Villa m.a.s. nokkur, getur ekki hætt!) er Taking turns.

Ég var að skoða bloggið hennar um daginn og sá þá þessa tösku. Reyndar á hún sjálf ekki heiðurinn af sniðinu en virðist brjálæðislega hrifin af því engu að síður. Hönnuðurinn að þessari tösku er reyndar líka ótrúlega flott. Hún heitir Ayumi og heldur úti blogginu Pink Penguin. Þar er hún með fullt af fríum sniðum og sýnikennslum. Hún býr í Japan og er mjög hrifin af japönsku efnunum (hver er það ekki???!!). Mæli með heimsókn til þeirra beggja (sko á bloggin þeirra!)

Monica virðist það hrifin af töskunni að hún hefur saumað nokkrar. Mér finnst þær allar mjög flottar hjá henni en London taskan heillaði mig gjörsamlega! Væri alveg til að næla í svona efni!! Hún er líka að gera úr eigin Winterkist efnum, krúttulegum húsaefnum og Sew Cherry efnum (af hverju keypti ég ekki þessi efni þegar þau voru í boði???!!!) ásamt fullt af öðrum efnum, þið verðið bara að rúlla í gegnum bloggið hennar!

Þessi taska er ekki flókin og ekki tímafrek, nú get ég hætt að mæta í vinnuna með nestið í 66°N pokanum (sem hefur þó reynst vel, bara orðinn svo sjúskaður greyjið!)

Og hver myndi ekki vilja smakka á afgöngunum??? Mmmhhh…..