Herðubreið

image
Ok, hafið þið ekki stundum lent í því að vera að prjóna, hekla eða sauma eftir uppskrift og skilja ekki baun í henni? Ég lendi stundum í þessu. Sjaldan gefst ég upp {kemur þó fyrir} en yfirleitt fæ ég viðkomandi uppskrift á heilann og í mig hleypur einhvers konar keppnisskap eins og ég ætli sko ekki að láta þessa uppskrift vinna MIG… veit hún {uppskriftin} ekki hver ÉG ER?!!!

Við fjölskyldan erum í bústað núna og Andreu langaði svo að prófa að hekla sjal. Herðubreið, í nýju hekl-bókinni hennar Tinnu, María heklbók, virtist einföld svo við fórum að velja garn í hana. Andrea valdi sér fallega liti í Álafosslopa og svo var brunað í bústað.

image

Það er skemmst frá því að segja að við erum búnar að klóra okkur endalaust í hausnum EN höfum ekki dáið ráðalausar. 3G nettenging og facebook komu til bjargar! Við fundum facebook síðu bókarinnar og erum búnar að fá velviljaða aðstoð beint frá höfundi 🙂 – þetta er allt að koma, við eigum bara eftir að klóra okkur fram úr “flétta lykkjubogana saman” en ég held að þessi uppskrift sé að verða búin að átta sig á að hún hefur tapað þessu stríði! 😀

image
Hér að ofan er mynd úr bókinni af sjalinu… já og einn pínulítill sokkur sem ég náði að prjóna á litla Dag á milli hekluorrusta 🙂

Á prjónunum og nálinni

DSC_7345

Krummapeysa eftir Dagbjörtu í Litlu prjónabúðinni. Ég er búin að heyra svo margar dásemdarsögur um lamaullina sem hægt er að nota í stað léttlopans [þó mér finnist léttlopinn frábær] — ég prjónaði þessa peysu á Dag litla sem verður 11 mánaða eftir 2 vikur. Þessi ull er svakalega mjúk og áferðin ekki ósvipuð og í léttlopanum, þ.e. mött og loðin 🙂 — ég á bara eftir að ganga frá endum og þvo peysuna.

DSC_7357

Svo er ég að vinna að þessu jarðaberjateppi handa Örnu (5) [nei, ég saumaði það ekki á Singer vélina, bara þykjast fyrir myndatökuna :)]. Dóra Dís vinkona er búin að nota þessar jarðaberjablokkir í drasl og döðlur og ég bara varð að prófa enda á ég svo mikið af fallegum bleikum og rauðum efnum. Það er svakalega gaman að sauma þessar blokkir [sniðug aðferð við þetta græna] en þær koma úr teppinu Strawberry Social frá Pattern Basket. Það kom enginn eigandi til greina nema Arna því frá því hún gat talað hefur hún verið með jarðaber á heilanum. Þegar hún fer í bað útbýr hún þessa líka fínu jarðaberjasúpu [úr vatni og sápu!] sem allir fjölskyldumeðlimir verða að “gæða” sér á og í eftirrétt fáum við jarðaberjate. Hún er líka alltaf að biðja okkur um að hafa alvöru jarðaberjasúpu í matinn, hahaha, ég hafði ekki einu sinni haft hugmyndaflug í að til væri jarðaberjaSÚPA en á endanum gúgglaði ég það og það eru fullt af jarðaberjasúpu-uppskriftum til þarna úti, flestar bornar fram kaldar — finnst það ekkert voðalega girnilegt en maður veit aldrei… 🙂

DSC_7360

DSC_6528

Hvít kertaljósahúfa

DSC_7356

Hér er hvíta kertaljósahúfan tilbúin.

Þessi er með sömu stærð af stroffi og sú blágræna — grænbláa (??) — en eftir stroffið jók ég meira út en á henni. Það kemur mun betur út á fullorðnum (a.m.k. miðað við mína prjónfestu). Blágræna húfan er í rauninni of lítil á bæði mig og Andreu (11) svo Arna (5) fær að eiga hana 🙂

Ef ég geri eina enn [sem er mjög líklegt] þá myndi ég líka gera stroffið aðeins breiðara.

Dúskinn keypti ég í Handprjón.is

DSC_7351

DSC_7329

DSC_7325

Efnishyggjan

DSC_7024

Síðasta vor skrifaði ég um konu sem kom til Íslands og vantaði aðstoð við að finna góðar handavinnuverslanir. Hún heitir Anna (hjá Thimbleanna) og sendi mér tölvupóst. Í stuttu máli þá bauðst ég til að skutla henni á milli nokkurra verslana og við spjölluðum og kynntumst aðeins í leiðinni.

Anna er með litla Etsy búð þar sem hún selur dulítið af efnum. Um daginn sá ég æðisleg doppótt hörefni hjá henni og ákvað að panta. Þegar pakkinn kom fannst mér hann nú heldur þykkur miðað við það magn sem ég hafði pantað. Skýringuna var að finna í því að hún hafði troðið út umslagið eins og hún gat af miklu fleiri efnum en ég pantaði, og allt (nema gleraugun) doppótt, heppin ÉG!! 🙂

Hér eru efnin sem ég pantaði:
DSC_7045

Og hér eru hin efnin sem komu með til viðbótar:
DSC_7054

DSC_7049

Allur pakkinn:
DSC_7031

Og fallegt kort með
DSC_7066

Afmælisteppið hennar Brynju

DSC_6688

Gleðituskurnar mínar eru sex hressar konur… og ég… sem sagt, sjö konur á alls konar aldri.

Við erum búnar að vera að “deita” í… tja…. hugs hugs…. mörg ár, nokkrar byrjuðu á undan hinum en við allar sjö höfum verið saman síðan 2004 og haft það mjög gaman og huggulegt. Við höfum átt saman fullt af sauma- (og síðustu ár prjóna- og heklu-) stundum, bústaðaferðum og öðru á þeirri línunni.

Allar eigum við það sameiginlegt að eiga einhvern tíma stórafmæli! — og þegar ein á stórafmæli í vændum gerum við hinar nokkuð ljótt — við leggjum hana í einelti, skiljum hana útundan og hittumst mörgum sinnum án hennar til að sauma saman afmælisteppi! Sem sagt rosa gaman 🙂

Ferlið er yfirleitt þannig að við ákveðum mynstur og liti. Síðan deilum við blokkunum á milli okkar, saumum hver okkar blokkir (yfirleitt fjórar til sex blokkir á konu) og síðan hittumst við og saumum blokkirnar saman saman (þið eruð að ná þessu “saman saman” er það ekki? :))

Jæja, tvær áttu stórafmæli á síðasta ári, Helga sem varð 70 ára í október og Brynja sem varð 60 ára í desember.

Hér eru myndir af teppinu sem við gáfum Brynju. Sniðið er Flower Girl frá Thimble Blossoms (Camille Roskelley úr Bonnie and Camille tvíeykinu sem gerðu m.a. Swoon teppið sem ég dái og dýrka… doldið flókið ég veit). Teppið er 200 x 240 cm og var stungið af Halldóru í Garnbúðinni Gauju

Alltaf gaman að koma vinkonum á óvart 🙂

DSC_6687

DSC_6565

DSC_6698

DSC_6578

DSC_6581

DSC_6579

Möndlukaka

DSC_6818

Hjúkk! Helga gaf leyfi 🙂

Hér er uppskriftin að möndlukökunni, mæli með þessari á sunnudegi með góðu kaffi!
[Ég gerði tvöfalda uppskrift enda með stórt form]

Möndlukaka

2 Egg
1 ½ dl sykur
1 ¾ dl hveiti
1 tsk lyftiduft
100 gr brætt smör
1 ½ tsk möndludropar

Egg og sykkur þeytt vel saman, hveiti og lyftidufti bætt útí, hrært smá. Smöri og dropum bætt varlega útí. Sett í vel smurt form. Bakið ca 30 mín við 175 gráður. Bökunartíminn er að sjálfsögðu mislangur eftir stærð á formi, gott að hafa bökunarprjóninn við hendina

Glassúr

Flórsykur
Heitt vatn
Matarlitur
Og svo segir Helga: Það er síðan voða næs að hafa líka möndlu bragð af glassúrinu en þá bara ca 1 dropa (nota dropateljara)

DSC_6813

Verði ykkur að góðu,
Berglind og Helga 🙂

Kross

DSC_6994

Hér er peysan Kross úr Ístex Lopabók nr. 28

Uppskriftin gerir ráð fyrir fimm litum en mér fannst alveg nóg að nota þrjá. Þessi peysa er fljótprjónuð enda enginn tvíbandaprjón í mynstri. Það var dálítil áskorun að prjóna gatamynstrið á ermunum því lykkjurnar voru alltaf að detta af sokkaprjónunum. Ég brá því á það ráð að nota 40 cm hringprjón þegar prjóna átti gataumferðina og prjóna svo aftur yfir á sokkaprjónana.

Uppskrift: “Kross” — Lopi nr. 28 frá Ístex
Garn: Ístex Létt lopi
Prjónar nr. 6,5 (stroff 5,5)
Stærð: M

DSC_7000

DSC_7001

DSC_7006

DSC_7008

Helgin

DSC_6832

Þar kom að því að fjölskyldan yrði á barðinu á einu stykki flensu! Eiki (eiginmaðurinn) kom fyrstur heim með hálsbólgu og hita og síðan tók Dagur litli við. Ég þurfti auðvitað að kyssa og knúsa litla snáðann svo mikið (lét Eika alveg vera) að það var ekki komist hjá því að flensan næði mér líka. Það eina sem ég hef getað gert er að hjúkra öðrum og liggja svo sjálf upp í sófa.

Á meðan ég hjúkraði hinum bakaði ég þessa dásamlega góðu möndluköku. Helga vinkona gaf mér svona köku þegar ég heimsótti hana síðast og ég bað hana um uppskriftina. Ég ætla að heyra í Helgu á morgun og athuga hvort ég megi ekki birta uppskriftina hér — nú er líka komin pressa á hana, kannski er þetta gömul fjölskyldu-uppskrift sem Helgu ber að taka með sér í gröfina?!!! :0

DSC_6807

DSC_6811

Ég náði líka að komast á útsöluna í Föndru, Dalvegi og kaupa efni í fjórar buxur á Örnu (5). Hún er alveg orðin buxnalaus og vill helst bara ganga í leggings eða joggingbuxum. Sniðið er búið að liggja á stofuborðinu í næstum viku en ég vona að ég nái að sníða í buxurnar og sauma þær í vikunni.

DSC_6735

Að lokum náði ég að klára þessa peysu á sjálfa mig. Hún heitir Kross og ég er úr Ístex blaði nr. 28. Léttlopapeysa og afar einföld – tek mynd af henni tilbúinni á morgun og sýni ykkur.

DSC_6725

Vetrarríkið fyrir helgi var dásamlegt, snjónum kyngdi skyndilega niður og ég náði þessum dásamlegu myndum, kvöldmyndirnar eru teknar rétt eftir miðnætti og það hefði mátt heyra saumnál detta, yndislegt!

Eigið góða viku framundan og ekki gleyma að gerast áskrifandi að blogginu hér til hliðar 😉
Berglind

DSC_6971

DSC_6974

DSC_6969

DSC_6978

DSC_6961

DSC_6945

DSC_6947

DSC_6937

DSC_6944

DSC_6917

DSC_6918

DSC_6920

DSC_6932

Áskrift

Jæja, þá er bloggið orðið hátæknivætt því nú er hægt að gerast áskrifandi að hverri færslu.

Skráið inn netfangið í gluggann hér hægra megin og smellið svo á “Skrá netfang”. Þá berst ykkur tölvupóstur sem biður ykkur að staðfesta áskriftina. Voilá! Einfalt :)

Áskrift að blogginu

Kertaljósahúfa

DSC_6666

Hér er ein falleg og afar auðprjónuð húfa. Uppskriftina og garnið fékk ég hjá Dagbjörtu í Litlu prjónabúðinni (er ég örugglega búin að dásama þá búð nægilega mikið?!) en upphaflega uppskriftin er af Ravelry, Dagbjört svar svo snjöll að fá leyfi hjá höfundi til að íslenska hana (sparar sumum okkar heilmörg spor!)

Andrea á húfuna og valdi litinn sjálf. Það eina “slæma” við þessa uppskrift er hve fljótleg hún er og maður verður að flýta sér aftur út í búð daginn eftir að hún klárast til að kaupa í fleiri húfur [ein hvít á leiðinni]

DSC_6663

DSC_6658