Ég fæ ekki nóg af þessum efnum!
Ég er búin að vera að leika mér með afgangana eftir rúmteppið. Mig hefur alltaf langað til að prófa að sauma Dresden plate blokkir. Ég keypti einhvern tíma sérstaka stiku fyrir þannig blokkir og hélt að þetta væri meira mál. Það kom mér því á óvart hvað það er ótrúlega einfalt og fljótlegt að sauma eina svona blokk. Það er líka svo gaman að ég gerði nokkrar stærðir til að prófa.
Litli púðinn er einmitt prufublokk en hún varð svo falleg að ég skellti henni í púðaver og utan um púða sem ég var búin að eiga heillengi inn í skáp (ég fékk næstum lungnaþembu þegar ég dustaði púðann, það þyrlaðist svo mikið ryk upp úr honum hahaha). Ég nennti ekki að gera sérstakt púðaver sem hægt væri að taka af heldur saumaði ég verið bara beint utan um púðann. Ég verð þá að taka bindinguna af fyrst ef ég ætla að losa verið af til að þvo það 🙂
Ég lagði aðeins meiri vinnu í stærri púðann, stakk blokkina og saumaði hnappagöt aftan á svo ég gæti þvegið utan af púðanum.
Hér er svo enn einn púðinn í vinnslu, ég á enn smá eftir af afgöngum og ætla að prófa að gera Log cabin blokk eða pappírssaumaðar fjaðrir sem ég sá á netinu um daginn, kemur í ljós.
Hafið það gott í sólinni!
Berglind