Pínuponsu teppi og risateppi

Eins og venjulega er ég með allt allt allt allt allt (þið náið þessu er það ekki?!!) of margt á prjónunum, heklunálinni og í saumavélinni… sko allt of margt! En það er bara svo gaman að byrja á nýju 🙂

Það klárast þó alltaf eitt og eitt í einu og nú er ég alveg að verða búin að hekla lítið teppi úr ömmuferningum. Ég er búin með 35 af 42 ferningum. Ég fór með vinkonu minni á heklunámskeið hjá Storkinum fyrir rúmu ári síðan og það kom mér á óvart hvað þetta er einfalt og skemmtilegt. Og það er eitthvað við svona ömmudúlluteppi, kósí og krúttlegt, hið fullkomna sófaverkefni.

Annað verkefni sem ég var að klára er hjónarúmsteppi. Maðurinn minn lagði fram kvörtun í fyrra, eigandi svona saumakonu en hafa aldrei eignast teppi á hjónarúmið (okei, það var reyndar eitthvað til í þessu þarna). Svo ég dreif í teppi en hef saumað það í skorpum síðan í september í fyrra. Hér er teppið komið, dásamleg efni frá Joel Dewberry. Ég er að klára bakið og svo ætla ég með það í stungu (nenni ekki að stinga svona stórt teppi heima, ef það er þá hægt).

Teboð

Við buðum heim í formlegt enskt teboð um Verslunarmannahelgina. Félagsskapurinn var vel valinn og ekki af verri endanum. Ég byrjaði á að lesa mér til um hvernig skal halda formlegt enskt teboð og úr varð þessi afrakstur. Vinnan við undirbúning var á við tvöfalt barna-afmæli en mikið asssk… var nú gaman að þessu öllu saman.

Gestirnir voru tveir fullorðnir og með þeim þrjár prinsessur, auk okkar hjóna og þriggja barna. Barnaborðið var sér og mikið svakalega skemmtu börnin sér vel. Ég var viss um að þau myndu drífa þetta af og fara svo fljótt frá borði en það var ekki raunin. Þau nutu í botn, prófuðu ýmsar tegundir af ístei og ávaxtatei og smökkuðu allar krásirnar.

Við buðum upp á ýmsar samlokur á neðstu hæðum, svo komu enskar skonsur (fann æðislega góða uppskrift hér, en mæli með að baka næstum helmingi lengur en er gefið upp) og melónukúlur á miðhæðinni. Að lokum voru sætar krásir efstar, makkarónukökur (heimagerðar auðvitað :)) og súkkulaðibitakökur, uppskrift hér.

Með þessu var svo boðið upp á Philadelphia rjómaost, sultur, hunang og Nutella 🙂

Á hverju borði voru 3-4 tegundir af tei.

Það skemmtilegasta af öllu var að báðar fjölskyldur lögðu býsna mikið á sig við klæðnað í anda teboðanna, breskir kjólar, hattar, þverslaufur, axlabönd og ermabönd 🙂

 

… og svo tók við bökugerð

Það kæmi mér ekki á óvart að Arna yrði kokkur eða bakari, hún veit fátt skemmtilegra en að elda, baka og smakka!

 

Arna býr til múslí

Mamma færði mér nýju bókina hennar Berglindar Sigmars um daginn að gjöf, Heisluréttir fjölskyldunnar. Bókin er æðisleg!! Mæli 100% með henni. Svo fallegar myndir (augnakonfekt) og uppskriftirnar sjálfar eru líka æðislegar (a.m.k. þær sem ég hef prófað nú þegar).

Við Arna skelltum í eina uppskrift að múslí (bls. 215) í dag, æðislega gott, getum ekki beðið eftir því að setja það út á “nammiskyr” í fyrramálið.

Sú stutta stóð sig vel við að opna pistasíurnar með mér og hræra öllu saman… skemmti sér líka konunglega á meðan 🙂

Nafnateppi

Bráðum fer ég í nafnaveislu, hér eru efni sem eru þessa helgina að breytast í lítið strákateppi. Litli guttinn fær teppið í nafna-gjöf.

Einu sinni (fyrir all-mörgum árum) hitti ég konu sem sagðist bara sauma úr einlitum efnum og ég man að ég hugsaði hvað það hlyti að vera leiðinlegt!! Hehe, svona breytist maður, nú er ég orðin sjúk í einlit efni, bæði eingöngu en líka með mynstruðum. Svo nú ætla ég að sauma úr einlitum efnum í fyrsta sinn. Verður spennandi að sjá útkomuna.

Afmæliskjólar

Andrea (10) og Arna (4) eiga afmæli með 10 daga millibili. Undanfarin sumur hef ég saumað á þær afmæliskjóla. Þetta er “2012 línan”! 🙂

Efnið er frá Tildu (Panduro), keypt í A4. Ég er alveg sjúk í þetta efni, gæti starað á það allan daginn! Sniðið að Andreu kjól er fráMinikrea, keypt í Twill en í Örnu kjól er frá Burdastyle, blað 5/2012. Ég breytti hennar kjól reyndar aðeins, hann átti að vera opinn að aftan (svuntukjóll) en ég setti tölur niður eftir öllu bakinu og bætti svo blúndunni við. Hugmyndina að blúndunni fékk ég í Föndru, þar hangir einn svona kjóll á gínu, ótrúlega fallegur úr ljósu rósóttu efni.

Bara eina muffin takk

Ég bakaði eina muffin fyrir afmæli stelpnanna, og svo aðra fyrir Huldu vinkonu sem var líka með tvöfalt barnaafmæli nokkrum dögum síðar

Hver vill koma í bað?

Jæja, það er nokkuð síðan ég kláraði þennan svína-þvottapoka og ég er alveg að verða búin að hekla úr bláa garninu… garnið sem ég keypti alveg “óvart”.

Hér er svínið, set inn mynd af því “bláa” þegar það er tilbúið