Sveitasæla, Jón og tuskur

Einhver talaði um að fríið væri gott ef þú mannst ekki lykilorðin þín í tölvuna þegar þú kemur aftur. Ég held að það sé mikið til í því. Það er ekki nóg að hvílast líkamlega heldur verður andlega hliðin að fá pásu líka. Við fjölskyldan fórum upp í bústað um mánaðarmótin og vorum þar meira og minna í tvær vikur. Unglingarnir gátu þó ekki verið allan tíma sökum vinnu og feðgarnir (Eiki og Davíð) fóru til Akureyrar að keppa í strandblaki. Við yngri deildin (Arna og Dagur) vorum þó öll þrjú allan tíman enda elskum við sveitina. Ég hvílist hvergi eins vel og þar og felst sú hvíld ekki síst í að elda, baka, sauma, hekla og prjóna.

Ég nýtti tíman vel, kláraði lopapeysu á Davíð sem ég byrjaði á fyrri næstum árið síðan, heklaði tvær tuskur og komst á flug í útsauminum

Hér eru nokkrar myndir

Lopapeysa:

Uppskrift: “Jón” – Bók: Lopi 31

Tuskur: “Litagleði” – Bók: Heklaðar tuskur í eldhúsið og baðherbergið

Útsaumur: Kaffe Fasset, keypt í Storkinum

Ný krummapeysa

DSC_6212

Dagur litli stækkar og stækkar, verður brátt 2ja ára og því fylgja auðvitað ný föt. Hann byrjaði á leikskóla í haust og var farið að vanta nýja hlýja peysu. Og þegar slík tilfelli koma upp “neyðumst” við prjónakonurnar til að hefja prjónana úr slíðrum!

Ég er svo hrifin af Krummapeysumynstrinu hennar Dagbjartar í Litlu prjónabúðinni að sama hvað ég reyndi að finna nýtt mynstur í peysu handa honum endaði ég alltaf aftur á Krumma… það varð því úr að ég keypti garn í nýja Krummapeysu en ákvað að hafa hana í öðruvísi litum en þá fyrri. Gráa í grunninn og dökkbrúna krumma. Þetta garn (lamaullin) er alveg dásamlegt, mýkra en léttlopinn og kemur alveg í staðinn fyrir hann (ég eeelska samt lopann líka!). Frábært fyrir þau kríli sem tooooga í hálsmálið með vanþóknun og setja upp stingu-kláðasvipinn við lopapeysum svo hjarta prjónakonunnar er við það að bresta 🙂

Hér er litli sykursnúðurinn í peysunni sinni og með uppáhaldið sitt, hann Bangsa:

DSC_6206

DSC_6203

DSC_6215

Snið: Krummapeysa eftir Dagbjörtu hjá Litlu prjónabúðinni
Bók: Saumaklúbburinn, Stóra prjónabókin og svo fæst uppskriftin hjá Litlu prjónabúðinni
Prjónar: 4,5 mm og 5,5 mm
Garn: Lamaull frá Strikkebogen (fæst hjá Litlu prjónabúðinni)
Stærð: 2ja ára

Og hér er Dagur í peysunni sem ég prjónaði á hann í ársbyrjun 2014 🙂

DSC_7573

Föstudagskvöld, Langamýri og Kagaðarhóll

01

Enn og aftur kominn föstudagur! Mér finnast föstudagskvöldin vera besti tími vikunnar. Einfaldlega af því að þá er öll helgin framundan og allir byrjaðir að vinda ofan af álagi liðinnar viku. Ég ætla að elda lambalærilæri með “dó-og-fór-til-himna” hvítlaukskartöflumús í dag og hafa tilbúið á borðum kl. 18 ásamt nýbakaðri skúffuköku mmhhh… borið fram í stáss-stofunni að sjálfsögðu og börnin snýtt og greidd (eða þannig) 🙂

Stefnan er svo tekin með dætrunum inn í saumaherbergi. Þar ætlum við að hafa það kósí, sauma kúruteppi, bangsateppi og nálapúða, spjalla um heima og geima og reita af okkur brandara. Á meðan verður eldri sonurinn örugglega í tölvunni í sama herbergi og hlustar á marrið í saumavélunum, skvaldrið í okkur stelpunum og plaffar nokkra skriðdreka af sinni einskæru list

Svona var þetta einmitt síðasta föstudag, Andrea hélt áfram að sauma teppið sem hún var að sauma á Löngumýri og Arna var að sauma teppi handa Marel en sá herramaður er bangsinn hennar, fyrrum “láttu-þér-batna” bangsi ömmu hennar en núverandi “elska-þig-út-af-lífinu” bangsinn hennar Örnu. Greyjið orðinn 13 ára og farinn að eldast, gott að fá hlýtt teppi þar sem hvert saumspor er saumað af hreinni ást 🙂

02

03

Arna og bangsateppið

Nú eru tvær vikur síðan við Andrea lögðum af stað til Löngumýrar í Skagafirði. Quiltbúðin með saumahelgar 12. árið í röð!! Og alltaf jafn vinsælt enda standa þær stöllur Kristrún og Sísa vaktina fimm helgar í röð, slíkur er átroðningurinn. Allar kellur tjúllaðar í staðinn, félagsskapinn og gjörninginn. Andrea er komin með blóðbragðið í munninn, ég mun aldrei fá að fara aftur án hennar, sem betur fer því það var unaður að hafa hana með. Gistum saman tvær í herbergi, hlustuðum á dúndurtónlist alla leið fram og til baka, áttum nokkur handfylli af hlátursaugnablikum, saumuðum fullt fullt, borðuðum góðan mat og skemmtum okkur konunglega saman. Helga og Fríða sátu á næsta borði og fastagestir létu sig flestir ekki vanta svo ekki var félagsskapurinn af verri endanum. Andrea náði að klára miðju í lúruteppi, fyrstu blokkirnar sem hún gerir alveg ein, saumaði, straujaði og skar! Ekki nennti stelpuskottið að bíða eftir að mamman vaknaði á morgnanna, hún hentist framúr og var byrjuð að sauma þegar ég var búin að teygja úr mér og komin á fætur.

Hér eru nokkrar (ókei fullt!) myndir frá þessari dýrðarhelgi.

Kannast ekki einhverjar við svona bílskott?!! 🙂
DSC_4766

Við Villa vinkona kaupum okkur alltaf nýja Löngumýrarsokka í stíl en þar sem Villa komst ekki núna keyptum við Andrea okkur sokka
DSC_4776

Andrea sekkur sér í saumaskapinn
DSC_4784

Barnateppi að verða til
DSC_4789

Helga og Fríða prófuðu nýja útgáfu af Sew Together Bag, þessi kallast Bionic Gear Bag
DSC_4798

DSC_4804

DSC_4805

Fyrsta blokkin sem Andrea saumar alveg ein og sjálf
DSC_4807

Andrea skellti sér í hafmeyjugallan og tók nokkur sundtök í heita “pottinum” (sem er risastór og líkari sundlaug en potti)
DSC_4823

DSC_4824

DSC_4831

DSC_4838

Allar mættar í stáss-stofuna
DSC_4841

DSC_4843

Fríða að reyna að vera á undan að taka mynd af mér 🙂

DSC_4844

DSC_4845

DSC_4853

Tvinnakeflateppi Helgu
DSC_4857

Fínn kvöldverður á laugardagskvöldinu
DSC_4860

Aldrei er verk látið úr hendi falla á Löngumýri!
DSC_4872

DSC_4873

Félagarnir Gunnar (staðarhaldarinn á Löngumýri) og Jón Hallur mættir að skemmta
DSC_4875

Andrea hafði mikið gaman af þeim félögum enda byrjuðu þeir á að syngja lagið “Jesú er besti vinur barnanna” fyrir hana hahaha….
DSC_4882

DSC_4884

Andrea hjálpaði mér með “sjóið og tellið” en ætlar sko að sýna sinn eigin afrakstur næst!
DSC_4885

DSC_4897

Og svo fór Andrea í verslunarferð!!!
DSC_4898

DSC_4900

Þessar fengu að koma með okkur í sveitina
DSC_4905

Miðjan hennar Andreu tilbúin
DSC_4909

Langamýri alltaf jafn falleg
DSC_4912

DSC_4915

Á leiðinni heim komum við Andrea við hjá Sigríði á Kagaðarhóli en þar var ég í sveit þegar ég var  hnáta. Það voru dásamlegir endurfundir, stórkostleg kona hún Sigríður sem býr nú ein á bænum, 81 árs. Tók bílprófið 75 ára 🙂
DSC_4918

Andrea við Kagaðarhól
DSC_4921

Eigið skapandi og gefandi helgi framundan 🙂
Berglind

Vöknuð!

DSC_4525

Geeiiiisp….. teygjjj…….

Já sæll!!!! 3 mánuðir!

Þetta var langt sumarfrí frá bloggi… frí sem teygði sig langt inn í haustið! Ég ætla ekki að þreyta neinn með upptalningu afsakana á því hvers vegna ég hef ekki bloggað í þrjá mánuði, það er bara svona „afþvíbara“… við horfum bara fram á við og höldum áfram þar sem frá var horfið

Sökum gríðarlegra veisluhalda í júlí og fram í ágúst tók ég langa (en alls ekki þarfa) pásu frá handavinnu en þess utan er ég búin að vera iðin; saumaði kjól á Örnu og peysu/blússu/topp (veit ekki alveg hvað á að kalla þetta stykki) á Andreu, hélt áfram með púða á hjónarúmið, gerði eina Swoon blokk í viðbót, kláraði röndótta lopapeysu á Andreu, prjónaði kertalogahúfu á Andreu, heklaði eina tusku (er það ekki í tísku núna?), kláraði eitt og hálft strákateppi (gamlar syndir) og er að prjóna lopapeysu á Davíð, aðra á Dag, sauma fleiri púða og…. (GLÍP!) ég er að fara á Löngumýri um helgina með Quiltbúðinni og fullt af hressum konum! – Af því tilefni er ég líka búin að skera í eitt barnateppi og skera í teppi fyrir Andreu mína en hún fær að koma með í ár í fyrsta sinn

Ég missti mig líka aðeins í efnakaupum í september, gat ómögulega haldið í mér lengur enda svo mikið af fallegum bleðlum í boði „þarna úti“ (veraldarvefnum).

Við sogumst nú lengra og lengra inn í haustið sem gleður mig mikið því ég elska haustið. Ég heyrði Sigríði Klingenberg segja í útvarpsviðtali um daginn að í árstíðarskiptum eins og sumar/haust yrði fólk yfirleitt svo þungt eitthvað…. ég veit bara ekkert hvað konan er að tala um, ég ELSKA sérstaklega þessi skipti. Á haustin fer ég í fimmta gír, vakna til lífsins og verð yfirleitt miklu orkumeiri (það að ég skuli vera að skrifa þessa bloggfærslu er einmitt lifandi sönnun þess). Það eru því bara spennandi tímar framundan.

Það er alltaf eitthvað að gerast í handavinnunni á Íslandi. Ný (ný gömul) búð í Hamraborg, Bútabær, var að opna eftir flutning frá Selfossi. Eruð þið búnar (æji, eru einhverjir strákar að lesa hérna?) að kíkja? Ég fór í fyrradag því ég var í klippingu í næsta húsi. Mér fannst þetta mest vera garn og svo eru einhver efni en flest þykist ég kannast við frá því verslunin var fyrir austan fjall… og ég held að þau séu flest frá síðustu öld (án gríns) eða aldamótum, hihihi… kannski mun það breytast! Alltaf gaman að fá nýjar handavinnubúðir á svæðið

Það er annars nóg að gera á heimilinu, við erum búin að umturna neðri hæðina og búin að rífa niður báðar svalirnar á efri hæðinni. Þegar farið var að mála eitt herbergið niðri og rífa (hroðalegar) flísar úr gluggunum kom í ljós svakalegur leki sem barst inn frá svölunum að ofan. Það var því ekkert annað í boði en að rífa svalirnar í burtu til að laga þetta… ég er að spá í að halda svalapartý fyrir nokkra vel valda aðila (hlæ hlæ)

Flestir fjölskyldumeðlimir eru að skipta um herbergi og unglingarnir eru að fá „ný“ uppfærð herbergi, svona „ekki-lengur-fimm-ára-herbergi“, þau þóttu ekki smart lengur. Þessu fylgir tilheyrandi vinna og rask en svona er lífið, þetta líður hjá á endanum… held ég… vonandi… hóst hóst……..

Ég læt hér fylgja nokkrar myndir nýjum efnum og púða í bígerð og set svo meira inn síðar, t.d. frá Löngumýri (GLÍP!)

Mig langar líka að deila með ykkur drepfyndinni (ég hló a.m.k. upphátt vel og lengi) bloggfærslu um iittala heilkennið sem ég las í gær, þið eruð kannski búnar að sjá þetta? Lesið þá bara aftur – þekkjum við ekki allar svona, eða ERUM við kannski bara allar svona? Ég ætla að fara fram og athuga hvað ég á marga límmiða!!!

Púði í vinnslu

efni (hjartað mitt tók aukaslag þegar ég sá þessi efni fyrst!): Up Parasol eftir Heather Bailey, 3″ ferningar (skornir 3,5″)

photo 1

photo 3

photo

Ný efni

Country Girls – frá Riley Blake – svoooo sææætttttt…..

DSC_4525

DSC_4528 DSC_4534

DSC_4530

DSC_4541

DSC_4540

DSC_4555

… já, og svona líta svalirnar hjá okkur út í augnablikinu… mæli ekki með kvöldstund á svölunum!! 🙂

10571958_10204557281710226_2938830366410484900_o

Góðar stundir
Berglind

Krummapeysa

DSC_7573

Það er þó nokkuð síðan ég bloggaði síðast — var upp í bústað — en ég hef ekki setið auðum höndum.

Þessa peysu kláraði ég þó nokkru áður en ég fór í bústaðinn en beið með að ganga frá endunum þar til ég kom þangað. Síðan skolaði ég úr henni eftir að ég kom heim og nú er þetta mest notaða útipeysan hans Dags.

DSC_7564

Ég hef fetað í fótspor margra prjónakvenna (og manna örugglega líka) sem hafa prófað að skipta út létt lopanum fyrir lamaullina frá Strikkebogen sem fæst í Litlu prjónabúðinni. Þessi ull er undursamlega mjúk og stingur ekki eins mikið og lopinn (finnst mér a.m.k.). Annars finnst mér lopinn alltaf æðislegur en bara allt öðruvísi og gaman að breyta aðeins til. Það er líka þessi fallega matta, úfna áferð á lamaullinni eins og létt lopanum og ullin fæst í mörgum litum hjá Litlu prjónabúðinni.

Annars fórum við Arna um daginn í Virku og hún fékk að velja sér flónelefni í bakið á jarðaberjateppinu sínu. Best að drífa sig að stinga það! Svo er ég núna að prjóna röndótta peysu á Andreu úr tvöföldum plötulopa, set inn myndir þegar hún verður búin. Ég er líka að klára að sauma allar joggingbuxurnar á Örnu og Dag. Arna er byrjuð að nota fyrstu buxurnar og er hæstánægð með þær. Oh, ef ég gæti nú bara prjónað með tánum og saumað í höndum á sama tíma!!

DSC_7560

Snið: Krummapeysa eftir Dagbjörtu hjá Litlu prjónabúðinni
Bók: Saumaklúbburinn, Stóra prjónabókin og svo fæst uppskriftin hjá Litlu prjónabúðinni
Prjónar: 4,5 mm og 5,5 mm
Garn: Lamaull frá Strikkebogen (fæst hjá Litlu prjónabúðinni)
Stærð: 1 árs

DSC_7558

DSC_7550

Herðubreið

image
Ok, hafið þið ekki stundum lent í því að vera að prjóna, hekla eða sauma eftir uppskrift og skilja ekki baun í henni? Ég lendi stundum í þessu. Sjaldan gefst ég upp {kemur þó fyrir} en yfirleitt fæ ég viðkomandi uppskrift á heilann og í mig hleypur einhvers konar keppnisskap eins og ég ætli sko ekki að láta þessa uppskrift vinna MIG… veit hún {uppskriftin} ekki hver ÉG ER?!!!

Við fjölskyldan erum í bústað núna og Andreu langaði svo að prófa að hekla sjal. Herðubreið, í nýju hekl-bókinni hennar Tinnu, María heklbók, virtist einföld svo við fórum að velja garn í hana. Andrea valdi sér fallega liti í Álafosslopa og svo var brunað í bústað.

image

Það er skemmst frá því að segja að við erum búnar að klóra okkur endalaust í hausnum EN höfum ekki dáið ráðalausar. 3G nettenging og facebook komu til bjargar! Við fundum facebook síðu bókarinnar og erum búnar að fá velviljaða aðstoð beint frá höfundi 🙂 – þetta er allt að koma, við eigum bara eftir að klóra okkur fram úr “flétta lykkjubogana saman” en ég held að þessi uppskrift sé að verða búin að átta sig á að hún hefur tapað þessu stríði! 😀

image
Hér að ofan er mynd úr bókinni af sjalinu… já og einn pínulítill sokkur sem ég náði að prjóna á litla Dag á milli hekluorrusta 🙂

Á prjónunum og nálinni

DSC_7345

Krummapeysa eftir Dagbjörtu í Litlu prjónabúðinni. Ég er búin að heyra svo margar dásemdarsögur um lamaullina sem hægt er að nota í stað léttlopans [þó mér finnist léttlopinn frábær] — ég prjónaði þessa peysu á Dag litla sem verður 11 mánaða eftir 2 vikur. Þessi ull er svakalega mjúk og áferðin ekki ósvipuð og í léttlopanum, þ.e. mött og loðin 🙂 — ég á bara eftir að ganga frá endum og þvo peysuna.

DSC_7357

Svo er ég að vinna að þessu jarðaberjateppi handa Örnu (5) [nei, ég saumaði það ekki á Singer vélina, bara þykjast fyrir myndatökuna :)]. Dóra Dís vinkona er búin að nota þessar jarðaberjablokkir í drasl og döðlur og ég bara varð að prófa enda á ég svo mikið af fallegum bleikum og rauðum efnum. Það er svakalega gaman að sauma þessar blokkir [sniðug aðferð við þetta græna] en þær koma úr teppinu Strawberry Social frá Pattern Basket. Það kom enginn eigandi til greina nema Arna því frá því hún gat talað hefur hún verið með jarðaber á heilanum. Þegar hún fer í bað útbýr hún þessa líka fínu jarðaberjasúpu [úr vatni og sápu!] sem allir fjölskyldumeðlimir verða að “gæða” sér á og í eftirrétt fáum við jarðaberjate. Hún er líka alltaf að biðja okkur um að hafa alvöru jarðaberjasúpu í matinn, hahaha, ég hafði ekki einu sinni haft hugmyndaflug í að til væri jarðaberjaSÚPA en á endanum gúgglaði ég það og það eru fullt af jarðaberjasúpu-uppskriftum til þarna úti, flestar bornar fram kaldar — finnst það ekkert voðalega girnilegt en maður veit aldrei… 🙂

DSC_7360

DSC_6528

Hvít kertaljósahúfa

DSC_7356

Hér er hvíta kertaljósahúfan tilbúin.

Þessi er með sömu stærð af stroffi og sú blágræna — grænbláa (??) — en eftir stroffið jók ég meira út en á henni. Það kemur mun betur út á fullorðnum (a.m.k. miðað við mína prjónfestu). Blágræna húfan er í rauninni of lítil á bæði mig og Andreu (11) svo Arna (5) fær að eiga hana 🙂

Ef ég geri eina enn [sem er mjög líklegt] þá myndi ég líka gera stroffið aðeins breiðara.

Dúskinn keypti ég í Handprjón.is

DSC_7351

DSC_7329

DSC_7325

Kross

DSC_6994

Hér er peysan Kross úr Ístex Lopabók nr. 28

Uppskriftin gerir ráð fyrir fimm litum en mér fannst alveg nóg að nota þrjá. Þessi peysa er fljótprjónuð enda enginn tvíbandaprjón í mynstri. Það var dálítil áskorun að prjóna gatamynstrið á ermunum því lykkjurnar voru alltaf að detta af sokkaprjónunum. Ég brá því á það ráð að nota 40 cm hringprjón þegar prjóna átti gataumferðina og prjóna svo aftur yfir á sokkaprjónana.

Uppskrift: “Kross” — Lopi nr. 28 frá Ístex
Garn: Ístex Létt lopi
Prjónar nr. 6,5 (stroff 5,5)
Stærð: M

DSC_7000

DSC_7001

DSC_7006

DSC_7008

Helgin

DSC_6832

Þar kom að því að fjölskyldan yrði á barðinu á einu stykki flensu! Eiki (eiginmaðurinn) kom fyrstur heim með hálsbólgu og hita og síðan tók Dagur litli við. Ég þurfti auðvitað að kyssa og knúsa litla snáðann svo mikið (lét Eika alveg vera) að það var ekki komist hjá því að flensan næði mér líka. Það eina sem ég hef getað gert er að hjúkra öðrum og liggja svo sjálf upp í sófa.

Á meðan ég hjúkraði hinum bakaði ég þessa dásamlega góðu möndluköku. Helga vinkona gaf mér svona köku þegar ég heimsótti hana síðast og ég bað hana um uppskriftina. Ég ætla að heyra í Helgu á morgun og athuga hvort ég megi ekki birta uppskriftina hér — nú er líka komin pressa á hana, kannski er þetta gömul fjölskyldu-uppskrift sem Helgu ber að taka með sér í gröfina?!!! :0

DSC_6807

DSC_6811

Ég náði líka að komast á útsöluna í Föndru, Dalvegi og kaupa efni í fjórar buxur á Örnu (5). Hún er alveg orðin buxnalaus og vill helst bara ganga í leggings eða joggingbuxum. Sniðið er búið að liggja á stofuborðinu í næstum viku en ég vona að ég nái að sníða í buxurnar og sauma þær í vikunni.

DSC_6735

Að lokum náði ég að klára þessa peysu á sjálfa mig. Hún heitir Kross og ég er úr Ístex blaði nr. 28. Léttlopapeysa og afar einföld – tek mynd af henni tilbúinni á morgun og sýni ykkur.

DSC_6725

Vetrarríkið fyrir helgi var dásamlegt, snjónum kyngdi skyndilega niður og ég náði þessum dásamlegu myndum, kvöldmyndirnar eru teknar rétt eftir miðnætti og það hefði mátt heyra saumnál detta, yndislegt!

Eigið góða viku framundan og ekki gleyma að gerast áskrifandi að blogginu hér til hliðar 😉
Berglind

DSC_6971

DSC_6974

DSC_6969

DSC_6978

DSC_6961

DSC_6945

DSC_6947

DSC_6937

DSC_6944

DSC_6917

DSC_6918

DSC_6920

DSC_6932