Dönsk prjónapeysa og buxur

DSC_4004

Fyrir nokkru bloggaði ég um prjónavesti sem ég gerði á Dag upp úr dönsku bókinni Babystrik på pinde 3. Nú er ég loksins búin með afapeysuna.

Ég get ekki sagt að mér hafi þótt neitt svakalega skemmtilegt að prjóna hana enda er hún öll prjónuð 2sl, 2br þannig að prjónið víxlast. Þannig verður perluprjón á milli sl/br lykkjanna. Þetta verður samt ótrúlega fallegt prjón og svakalega teygjanlegt. Og sæt er peysan og ótrúlega falleg við buxurnar úr sömu bók.

Buxurnar voru mjög svo fljótprjónaðar. Það varð nokkur afgangur af báðum litum og var sú sem afgreiddi mig í Litlu prjónabúðinni svo snjöll að benda mér á að prjóna aðrar buxur úr afgöngunum, hafa þær t.d. röndóttar, brúnar og grábláar eða t.d. bláar með brúnu stroffi.

Hér eru myndir af flíkunum en eigandinn var sofandi þegar myndatakan fór fram. Hann ætlar því að máta síðar og þá smelli ég eins og einni mynd af til viðbótar.

Þegar ég gerði prjónavestið var ég svo vitl… að prjóna það í stærð 0-3 mánaða. Ég er enn að troða honum í það blessuðum drengnum en ákvað að prjóna buxurnar og peysuna í stærðinni 12 mánaða. Ég er búin að kaupa garn í nýtt vesti og ætla að hugsa aðeins lengra fram í tímann þegar ég prjóna það…. aftur 🙂

Peysan

Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Morfartröje, bls. 14
Stærð: 12 mánaða
Garn: Bomuld og uld frá Geilsk, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,0 mm
Tölur: Litla prjónabúðin

DSC_4006

DSC_4007

Buxurnar

Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Bukser, bls. 12
Stærð: 12 mánaða
Garn: Bomuld og uld frá Geilsk, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,0 mm

DSC_4016

 

DSC_4025

Ó, og eitt enn… ef þetta eru ekki skilaboð frá Móður náttúru um að halda sig bara inni í dag og prjóna og sauma þá veit ég ekki hvað!! 🙂

DSC_4028

DSC_4030

 

Afmæliskjólar

Ég hef reynt að halda þeim sið að sauma afmæliskjóla á Andreu og Örnu á hverju ári. Þær eiga afmæli með 10 daga millibili og halda upp á það saman. Andrea (11) er orðin svo stór að hún vildi frekar pils í ár en Arna (5) sló ekki hönd á móti kjól og það með tjull-undirpilsi í þokkabót 🙂

Hér er útkoman!

Efni: Geekly Chick frá Riley Blake Designs (Lavender Glasses)
Tölur: Keyptar í Fjarðakaup
Snið kjóll: Börnetöj 4-7 år (Hanne Meedom og Sofie Meedom)
Snið pils: Ottobre kids fashion 01/2012

DSC_2472

DSC_2728

Arna (5) og Andrea (11)

DSC_2745

DSC_2751

DSC_2760

DSC_2736

DSC_2705

Hressar með Davíð, bróður sínum 🙂

Strákavesti

DSC_1578

Þegar ég var ólétt keypti ég gjörsamlega guðdómlega danska prjónabók í Litlu prjónabúðinni. Bókin heitir Babystrik på pinde 3 og er eftir Lene Holme Samsöe. Þessi bók er þvílíkt augnakonfekt, með barnauppskriftum fyrir 0-2 ára. Mig langar að prjóna allar uppskriftirnar frá bls. 1 til enda – veit nú samt ekki hvað litli kallinn minn segði yfir öllum stelpufötunum! 🙂

En einhvers staðar verður maður að byrja og rétt áður en snáðinn fæddist byrjaði ég á þessu litla vesti. Því miður var ég svo vitl… að prjóna það í stærðinni 0-3 mánaða sem þýðir að hann mun stækka upp úr því á korteri. Hann er svo sætur í því að ég ætla strax að prjóna annað í stærra númeri. Ég er líka búin með sætar strákabuxur – sýni þær hér í vikunni – prjónaði þær í stærðinni 12 mánaða og er langt komin með litla afapeysu, líka í stærðinni 12 mánaða.

DSC_1581

Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Lillies top, bls. 21
Stærð: 0-3 mánaða
Garn: Semilla fino frá BC Garn, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,5 mm

Campus peysa

DSC_0994

Þessa peysu ætlaði ég að prjóna upp á fæðingardeild (já ég veit… fjórða barn og maður heldur ennþá að maður hafi tíma til að prjóna upp á fæðingardeild!!!) en hún var svo fljótprjónuð að ég kláraði hana áður en við fórum uppeftir.

Ég var rétt í þessu að skella tölunum á hana. Nú er bara að “kjöta” litla kallinn upp svo hann fari að passa í hana 🙂

DSC_0962

DSC_0973

DSC_0988

DSC_0984

Peysan er prjónuð úr afgöngum af heklaða teppinu hans. Ég elska, dái og dýrka þettta garn!!

Bók: Cuddly Knits for Wee Ones
Uppskrift: Little man on campus, bls. 48
Stærð: 3 mánaða
Garn: Debbie Bliss Rialto DK
Prjónar: 4,5 mm og 5,5 mm

p.s. ef þið prjónið peysuna úr bókinni, þá eru nokkrar leiðréttingar hér. Ég skrifaði til forlagsins eftir miklar vangaveltur varðandi eitt atriði og höfundurinn, Lori, sendi mér leiðréttingarnar sjálf persónulega sem mér fannst mjög töff 🙂

DSC_1001

DSC_0997

DSC_0999

Tölur

DSC_0812

Ég skrapp í Fjarðakaup í dag og kom við í Rokku (hannyrðardeildin í Fjarðakaup) til að kaupa lopa í litla vagn-lopapeysu handa snáðanum.

Kom þá auga á æðislegar trétölur, bæði einfaldar og með áprentuðum mynstrum. Það erfiðasta var að velja hvað ég ætti að taka en þessar urðu fyrir valinu

Litlu einföldu trétölurnar ætla ég að nota á nærbol (þarf bara þrjár – á þá auka) sem ég er að prjóna núna upp úr æðislegri danskri barnabók sem fæst hjá Litlu prjónabúðinni (sem er að verða uppáhalds prjónabúðin mín í Reykjavík!). Hjartatölurnar ætla ég að nota í kjól sem ég ætla að sauma á Örnu – nú er bara spurning, hvora tegundina á ég að nota???

Þessar…

DSC_0814

… eða þessar…

DSC_0818

 

DSC_0796

 

Slaufukjóllinn tilbúinn

DSC_0272

Kjóllinn hennar Örnu er loksins tilbúinn.

Hann var frumsýndur á rauða dreglinum (í Reykjafold) um páskana og verður þessi líka fíni “sautjándajúníkjóll”!!

DSC_0284

Arna er alsæl með hann og er farin að nota hann á leikskólanum (tekur því ekki að hafa svona kjóla of mikið spari, barnið vex jú, en brókin ekki :))

Eina sem ég gæti sett út á hann er að hálsmálið er helst til of lítið og þröngt, Arna þarf að trooooooðððða honum yfir höfuðið á sér… ég held að hún sé ekki með óvenju stórt höfuð! Ætli ég geri ekki bara smá klipp aftan á og setji litla tölu til að stækka málið?!

DSC_0274

DSC_0300

DSC_0310

Myndprjón

DSC_0008

Í fyrra (síðsumars) var ég stödd í Storkinum að kaupa eitthvað smálegt garn… þá henti mig, það sem stundum gerist, að ég fór að fletta blöðum og bókum. Nýjasta Debbie Bliss (spring/summer 2012) blaðið lá á borði og ég fór að blaða í gegnum það. Sá ég þá þennan líka sæta rauða “sailor” prjónakjól á litlar dúllur. Og, eins og hefur gerst áður, rankaði ég allt í einu við mér út í bíl með poka í hendi… alveg steinhissa kíkti ég í pokann og þá var bara eins og einhver hefði keypt handa mér blaðið OG garnið í kjólinn… það átti bara eftir að setja kjólinn saman!!!

Prjónakjóll06

Eftir að hafa prjónað talsvert úr íslensku ullinni (sem ég b.t.w. elska!) og flest prjónað í hring, langaði mig að prófa að prjóna svona “alvöru” flík úr fínlegra garni. Uppskriftin er auðvitað ekkert nema skammstafanir og það getur verið auðvelt að hræðast svoleiðis og henda þessu frá sér. Svo er svo skrítið að það er eins og útlenskir prjónarar hafi aldrei heyrt um að prjóna í hring! Alltaf prjónað fram og til baka, bakstykki og framstykki prjónuð sér og svo saumuð saman á eftir… jæja, ég var ákveðin í að komast yfir hræðsluna og hófst handa. Ég byrjaði á bakstykkinu, fram (sl) og til baka (br), fram (sl) og til baka (br), fram (sl) og til baka (br)… milljón umferðir. Vá hvað það er leiðinlegt að prjóna brugðið til baka, eins og það er gaman að spítta í og prjóna slétt að framan! Bakstykkið gekk annars bara vel, ekkert mál að forma ermar og auðveldara að skilja uppskriftina en maður hefði haldið í byrjun.

Prjónakjóll03

Nú kemur snilldin! Ég tók næstum klárað bakstykkið með mér norður á Löngumýri og þar sá Fríða Ágústsdóttir mig vera að prjóna… hún laumaði fingrunum í prjónana og sýndi mér miklu skemmtilegri leið (finnst mér) til að prjóna brugðið til baka… og mér finnst sú aðferð líka gefa miklu fallegra prjón. Maður snýr ekki stykkinu til að prjóna brugðið heldur prjónar maður til baka frá vinstri til hægri. Og þetta er ekkert flókið heldur (einfaldara en “okkar brugðning”). Þegar ég kom heim fann ég þessar leiðbeiningar á Youtube ef þið viljið kynna ykkur þetta.

Fríða sagði mér að hún hefði lært þessa aðferð þegar hún fór eitt sinn á námskeið í myndprjón. Stundum er eins og maður eigi að hitta ákveðna einstaklinga, engar tilviljanir. Það vill svo til að framstykkið á kjólnum er með myndprjóni í lokin!! Ég ákvað því að prjóna framstykkið allt svona. Það verður að vísu aðeins fastar prjónað en garnið er svo fínlegt að ég held ég muni alveg getað teygt pínu á því til að það passi við bakstykkið.

Myndprjón opnaði fyrir mér alveg nýja vídd. Allt öðruvísi en þegar við prjónum lopapeysumynstur því bandið aftan á fer ekki yfir mynstrið heldur þarf maður að vera með marga spotta hangandi í “myndinni”. Þetta var þó nokkur áskorun en eftir mörg Youtube myndbönd og fjárfestingu í rafrænni myndprjónsbók (myndprjón = intarsia knitting) gekk þetta að lokum og var bara nokkuð skemmtilegt… seinlegt, en skemmtilegt 🙂 – ég fann líka þessa snilldar ábendingu á netinu; að vefja garni upp á þvottaklemmur, kemur sér líka vel í útsaum, þ.e. vefja útsaumgarninu upp á þvottaklemmur.

Prjónakjóll01

Nú á ég bara eftir að sauma bak- og framstykkin saman og máta kjólinn á Örnu mína. Það er orðið ansi langt síðan ég byrjaði á kjólnum. Mér sýnist hann passa á hana, hann gæti þó verið  heldur stuttur… ég redda því þá bara með blúndu neðst eða hekla eitthvað sætt neðan á hann… fullkominn 17. júní kjóll!

Ég set inn myndir af henni þegar hún verður komin í hann 🙂

DSC_0009

Ungbarnapoki

DSC_0047

Það styttist í snáðann (4 vikur eftir í settan dag)… samt erum við svo róleg yfir þessu öllu (fjórða barn!) – höfum eiginlega ekki gert neitt tilbúið. Búin að kaupa bleyjur, hekla teppi og prjóna þennan ungbarnapoka. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það er mikil gerviþörf í gangi þegar kemur að barneignum (sko, varðandi barnadót, ekki börnin sjálf haha). Svo margt af því sem manni var talið trú um að maður yrði að eiga/hafa þegar ég var að eignast mín fyrstu börn var svo bara óþarfi. Ég held að það sé best að koma sér upp helstu nauðsynjum (rúm/vagga, bleyjur, föt til skiptana, gjafapúði…) og sjá svo bara hvort þörfin á fleira dóti láti kræla á sér… það má þá bara stökkva út í búð eftir því.

Annað sem ég hef tekið eftir er verðlagning á barnavörum í dag miðað við fyrir 10-11 árum þegar ég átti Andreu og Davíð!!! Þessi verðlagning er út úr öllu samhengi við verðbólgu. Til dæmis fór ég í Babysam að skoða vöggur. Það voru engar vöggur til en að sögn starfsfólksins voru nokkrar á leiðinni. Það vildi svo til að starfsstúlkan (sem b.t.w. var mjög almennileg) átti mynd af þeim í bæklingi sem Babysam hafði gefið út árið 2003 (enn að selja sömu vöggur)… hún rétti mér bæklinginn en í honum var ekki bara myndin heldur líka verðið á vöggunni þegar bæklingurinn var gefinn út, 9.900 krónur. Ég spurði af rælni hvað vaggan kosti í dag… u.þ.b.49.000!!!!! Og þetta eru ekki verð með dýnu eða himnasæng… hvurslags eiginlega dónaskapur er þetta?!!! Og á dönsku síðu Babysam kostar þessi vagga DKK 1.299 (u.þ.b. 29.000 ISK). Maður þakkar bara fyrir að eiga flest það sem okkur vantar, ég myndi ekki vilja vera að eignast mitt fyrsta barn í dag án þess að hafa einhverja góða að sem geta lánað manni dótið!

DSC_0044

Okei, þá er ég búin að röfla yfir því… aftur að ungbarnapokanum 🙂 – Ég fékk fallegar tölur í Litlu prjónabúðinni. Hafði ekki komið þangað inn áður. Æðisleg búð og æðisleg þjónusta – tekið á móti manni með bros á vör… mæli með ferð þangað! 🙂

DSC_0042

Snið: Garnstudio BabyDROPS 18-2 (frítt á netinu)
Stærð: 6-9 mán.
Garn: Drops Eskimo Tweed no 73 (silver grey) – keypti í Föndru, Dalvegi
Magn: ath! gefið er upp 11 dokkur, það er allt of mikið, ég notaði rétt rúmlega 8 dokkur!!
Prjónar: #8.0
Tölur: Litla prjónabúðin

DSC_0038

DSC_0045

 

Heklaðar húfur

Uppskriftina að þessum sætu húfum fann ég á síðunni Aesthetic Nest. Þessi kona er frá USA og saumar og heklar mikið á stelpurnar sínar. Hún gefur fullt af fríum uppskriftum með sýnikennslu (tutorials). Mæli með innliti á síðuna hennar 🙂

Garn: Debbie Bliss Rialto DK (fæst í Storkinum, Laugavegi)

Afmæliskjólar

Andrea (10) og Arna (4) eiga afmæli með 10 daga millibili. Undanfarin sumur hef ég saumað á þær afmæliskjóla. Þetta er “2012 línan”! 🙂

Efnið er frá Tildu (Panduro), keypt í A4. Ég er alveg sjúk í þetta efni, gæti starað á það allan daginn! Sniðið að Andreu kjól er fráMinikrea, keypt í Twill en í Örnu kjól er frá Burdastyle, blað 5/2012. Ég breytti hennar kjól reyndar aðeins, hann átti að vera opinn að aftan (svuntukjóll) en ég setti tölur niður eftir öllu bakinu og bætti svo blúndunni við. Hugmyndina að blúndunni fékk ég í Föndru, þar hangir einn svona kjóll á gínu, ótrúlega fallegur úr ljósu rósóttu efni.