Fyrir nokkru bloggaði ég um prjónavesti sem ég gerði á Dag upp úr dönsku bókinni Babystrik på pinde 3. Nú er ég loksins búin með afapeysuna.
Ég get ekki sagt að mér hafi þótt neitt svakalega skemmtilegt að prjóna hana enda er hún öll prjónuð 2sl, 2br þannig að prjónið víxlast. Þannig verður perluprjón á milli sl/br lykkjanna. Þetta verður samt ótrúlega fallegt prjón og svakalega teygjanlegt. Og sæt er peysan og ótrúlega falleg við buxurnar úr sömu bók.
Buxurnar voru mjög svo fljótprjónaðar. Það varð nokkur afgangur af báðum litum og var sú sem afgreiddi mig í Litlu prjónabúðinni svo snjöll að benda mér á að prjóna aðrar buxur úr afgöngunum, hafa þær t.d. röndóttar, brúnar og grábláar eða t.d. bláar með brúnu stroffi.
Hér eru myndir af flíkunum en eigandinn var sofandi þegar myndatakan fór fram. Hann ætlar því að máta síðar og þá smelli ég eins og einni mynd af til viðbótar.
Þegar ég gerði prjónavestið var ég svo vitl… að prjóna það í stærð 0-3 mánaða. Ég er enn að troða honum í það blessuðum drengnum en ákvað að prjóna buxurnar og peysuna í stærðinni 12 mánaða. Ég er búin að kaupa garn í nýtt vesti og ætla að hugsa aðeins lengra fram í tímann þegar ég prjóna það…. aftur 🙂
Peysan
Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Morfartröje, bls. 14
Stærð: 12 mánaða
Garn: Bomuld og uld frá Geilsk, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,0 mm
Tölur: Litla prjónabúðin
Buxurnar
Bók: Babystrik på pinde 3
Uppskrift: Bukser, bls. 12
Stærð: 12 mánaða
Garn: Bomuld og uld frá Geilsk, Litla prjónabúðin
Prjónar: 2,5 mm og 3,0 mm
Ó, og eitt enn… ef þetta eru ekki skilaboð frá Móður náttúru um að halda sig bara inni í dag og prjóna og sauma þá veit ég ekki hvað!! 🙂